Á næstunni hyggst Ellingsen leggja enn meiri kraft í sölu rafhjóla og rafhlaupahjóla með opnun Rafhjólaseturs.

„Ég hef trú á því að nánast hver einasti Íslendingur muni koma til með að kaupa sér einhvers konar rafknúið farartæki á næstu 2-3 árum. Við höfum verið með rafhjól og -hlaupahjól til sölu í hátt í eitt ár, en með opnun Rafhjólasetursins munum við að einblína á að gera þann hluta fyrirtækisins enn stærri. Vöruúrvalið mun aukast og við erum stórhuga. Við viljum vera einn af stærri aðilum á markaðnum og bjóða upp á gæðavörur og góða þjónustu. Samkvæmt lögum er tveggja ára ábyrgð á þessum rafknúnu farartækjum og árs ábyrgð á rafhlöðunum. Það er hins vegar lítill vandi að eyðileggja rafhlöðu á nokkrum mánuðum ef það er farið illa með hana. Við viljum því leggja áherslu á að kenna fólki sem verslar við okkur hvernig skuli meðhöndla rafhlöðuna til að líftími hennar verði jafn langur og hann á að vera.

Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að í dag stöndum við á tímamótum er varðar umhverfismál og samgöngur. Rafknúin hjól af ýmsum toga verða stór hluti af bæði umhverfisvænni og þægilegri ferðamáta fyrir gríðarlega marga. Við ætlum okkur að vera leiðandi í þeim breytingum," segir Pétur Þór Halldórsson, forstjóri S4S, sem er tekinn tali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .