Ellos og Josefssons eru nýir vörulistar á Íslandi sem bjóða fatnað á sama verði og á öðrum Norðurlöndum. Í listunum er fjölbreytt vöruúrval; fatnaður á alla fjölskylduna, skór, fylgihlutir og heimilisvörur. Þar má m.a. finna  föt frá þekktum vörumerkjum eins og Nike, Puma, Levi´s og Adidas. Verðið á vörum í listunum er það sama og á öðrum Norðurlöndum og mun ekki hækka þótt gengið í íslenskum krónum breytist á næstu mánuðum, segir í fréttatilkynningu.

Ellos á Íslandi er rekið af fyrirtækinu Fólk ehf. sem rekið hefur póstverslun og verslun með fatnað í mörg ár frá H&M Rowells. Eftir að H&M Rowells var lagt niður var leitað að öðrum vörulista sem gæti staðist kröfur um tísku, gæði og gott verð. Ellos og Josefssons vörulistarnir frá stærsta póst- og netverslunarfyrirtæki Norðurlanda, Redcats Nordic AB, urðu fyrir valinu. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru yfir 3 milljónir á Norðurlöndunum.

„Við erum mjög stolt af því að geta boðið fatnað á sama verði og á öðrum Norðurlöndum," segir Baldur Dagbjartsson, framkvæmdastjóri Fólks ehf í fréttatilkynningunni. „Sérstaklega er ánægjulegt að beintenging er við pöntunar- og tölvukerfi Ellos í Svíþjóð sem sýnir strax hvort varan sé til eða ekki og þannig veitum við viðskiptavinum okkar einstaka þjónustu,“ segir hann.

Síðastliðið ár hefur verið unnið að því að setja upp vefsíðuna www.ellos.is þar sem hægt er að skoða og kaupa fatnað og aðrar vörur heima í stofu. Einnig er hægt að panta vörur símleiðis eða koma við í versluninni sem er í Húsi verslunarinnar, beint á móti Kringlunni.

Ellos og Josefssons tilheyra einu stærsta tískufyrirtæki Evrópu sem á m.a. tískuhúsin Gucci, Yves St Laurent og Boucheron.