Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, hefur verið ráðin sviðsstjóri Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. “Samþætting umhverfis- og samgöngumála hjá Reykjavíkurborg ber vitni um framsýni og nútímaleg vinnubrögð,“ segir Ellý Katrín og að hún hlakki til að hefja störf. Í tilkynningu vegna ráðningarinnar er haft eftir Ellý: “Það eru spennandi breytingar framundan í umhverfismálum í Reykjavík sem verður gaman að fá að taka þátt í að móta. Umhverfismál hafa æ meira vægi og Umhverfis- og samgöngusvið mun hafa mikil áhrif á þessum vettvangi.“ Ellý Katrín Guðmundsdóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og meistaraprófi í umhverfis- og alþjóðarétti frá University of Wisconsin Law School árið 1997. Hún starfaði áður hjá lagadeild Alþjóðabankans í Washington, DC, en tók við starfi forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur þegar hún var stofnuð 1. janúar 2002 og gegndi því starfi þar til stjórnkerfisbreytingar voru gerðar hjá Reykjavíkurborg í ársbyrjun 2005. Þá tók hún við sem sviðsstýra Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Hún hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá 1. apríl 2007. Hún hefur störf hjá nýju Umhverfis- og samgöngusviði snemma á nýju ári.