*

sunnudagur, 24. október 2021
Erlent 7. janúar 2021 17:29

Elon Musk orðinn ríkasti maður heims

Elon Musk hefur tekið fram úr Jeff Bezos sem ríkasti maður heims eftir mikla hækkun hlutabréfaverðs Tesla.

Ritstjórn
Elon Musk.
epa

Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX, er orðinn ríkasti maður heims, í krafti ævintýralegrar hækkunar hlutabréfaverðs Tesla sem hækkað hafa um 5,8% það sem af er degi.

Áætlaður auður Musk hefur vaxið um 150 milljarða dollara undanfarið ár samkvæmt auðmannalista Bloomberg, sem segir hann nú hafa tekið fram úr Jeff Bezos, stofnanda Amazon.

Tesla hefur hækkað um 743% undanfarið ár. Með því hefur auður Musk aukist úr um 40 milljörðum dollara í tæplega 190 milljarða dollara. Telsa er meðal fyrirtækja sem búist er við að njóti góðs af valdaskiptunum í Washington og hafa hlutabréf félagsins hækkað töluvert undanfarinn sólarhring.

Musk á 20% hlut í Tesla auk þess að eiga kauprétti að hlutum sem geta skilað honum um 42 milljörðum dollara. Bloomberg bendir á að margir hafi furðað sig á hve mikið bréf Teslu hafa hækkað enda framleiddi félagið ekki nema um hálfa milljón bíla í fyrra, sem er brot af þeim fjölda sem samkeppnisaðilarnir framleiða en er þó orðið margfalt verðmætara en helstu keppinautarnir.

Bloomberg segir Musk þó lítinn áhuga hafa á efnislegum gæðum og eigi fáar veraldlega eignir utan hlutabréfa sinna í Tesla og SpaceX. Musk segir markmiðið með auðsöfnun sinni vera að flýta sem mest fyrir búsetu manna utan jarðarinnar, og hefur sett stefnuna á byggð mannfólks á reikistjörnunni Mars.

Stikkorð: Tesla Elon Musk