Elon Musk, forstjóri Tesla, ritaði á samfélagsmiðilinn Twitter fyrir skömmu að hann hyggðist taka fyrirtækið af markaði. Þetta kemur fram í frétt BBC .

„Ég er að íhuga að taka Tesla af markaði á verðinu 420 bandaríkadollurum," ritaði hann á Twitter-aðgangi sínum.

Óvíst er hversu alvarlega ber að taka þessar færslur en Musk hefur áður sett færslur á samfélagsmiðilinn sem hafa verið hvatvísar og ómarktækar.  Þess má geta að þann fyrsta apríl síðastliðinn ritaði hann brandara um það að Tesla væri að verða gjaldþrota.

Það kann að vera að nýjasta færsla Musk hafi hróflað við væntingum fjárfesta en fyrirtækið hefur nú í bígerð næstu uppfærslu af bíl fyrirtækisins eða Model 3.

Fyrirtækið tilkynnti tap á síðasta ársfjórðungi og hafa sumir greinendur haldið því fram að Tesla muni ekki hafa það af.

Musk segir þó að það séu óþarfa áhyggjur og félagið muni skila hagnaði á seinni helmingi ársins, að öðru óbreyttu.