Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, er sá milljarðamæringur sem hefur séð auð sinn vænkast mest á þessu ári. Auðæfi Musk hafa aukist um 140 milljarða Bandaríkjadollara það sem af er ári, jafngildi 17,9 þúsund milljarða króna, og eru nú metin á um 167 milljarða dollara að því er segir í frétt CNBC.

Aukninguna má rekja til hækkunar á hlutabréfum Tesla sem standa í um 650 dollurum hvert en voru í 94 dollurum í upphafi árs. Í nóvember á þessu ári varð Musk næst ríkast maður heims en einungis Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon, var ríkari.

Téður Bezos er í öðru sæti yfir aukningu á auði það sem af er ári. Auður Bezos hefur aukist um ríflega 72 milljarða dollara á þessu ári og er nú metinn á um 187 milljarða dollara.

Sá sem situr í þriðja sæti er kínverski milljarðamæringurinn Zhong Shanshan sem stofnaði drykkjafyrirtækið Nongfu Spring. Zhong varð ríkasti maður Kína í september á þessu ári í kjölfar frumútboðs fyrirtækisins sem stofnað var árið 1996. Auður Zhong hefur vænkast um 63 milljarða dollara á þessu ári og er nú metinn á ríflega 69 milljarða.

Auk þess að eiga hlut í Nongfu Spring á Zhong ráðandi hluta í kínverska lyfjafyrirtækinu Wantai Biological sem vinnur að því að þróa nefsprey gegn COVID-19.

Hinn fertugi Colin Huang, sem einnig er frá Kína, sá auð sinn vaxa um 33 milljarða dollara á þessu ári og er metinn á um 53 milljarða. Huang stofnaði rafræna verslunarmiðilinn Pinduoduo árið 2015 en hætti sem forstjóri félagsins á þessu ári. Félagið var skráð á markað árið 2018 og hefur, líkt og keppinautar á borð við Amazon, séð mikinn vöxt síðan þá. Hlutabréf Pinduoduo hafa meira en þrefaldast það sem af er ári.

Bandaríkjamaðurinn Dan Gilbert situr í fimmta sæti listans en auður hans hefur aukist um 28 milljarða á þessu ári og er nú metinn á um 35 milljarða. Auk þess að vera eigandi NBA-liðsins Cleveland Cavaliers er Gilbert meðstofnandi húsnæðislánafélagsins Quicken Loans og á um 73% hlut í móðurfélagi þess, Rocket Companies. Hið síðarnefnda fór í frumútboð á þessu ári.