Elsa M. Ágústsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður verslana- og markaðssviðs Lyfju hf. Elsa tekur við starfinu af Þorgerði Þráinsdóttur sem hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfju.

Elsa er viðskiptafræðingur að mennt og hefur einnig lokið námi í verkefnastjórnun. Elsa starfaði hjá Símanum og Vodafone á árunum 2002 til 2006. Hún var markaðsstjóri Nýherja og dótturfélaga 2006-2008 en þá tók hún við stöðu rekstrarstjóra Sense. Hún var síðan framkvæmdastjóri smásölusviðs Nýherja frá 2011 þar til fyrr á þessu ári.

Elsa tekur við starfinu um áramót og tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn Lyfju hf. Aðrir í framkvæmdastjórninni eru: Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri, Þórbergur Egilsson, forstöðumaður þróunar og rekstrarmála, Sigurður Kristjánsson, fjármálastjóri og Hallur Guðjónsson, starfsmannastjóri.