*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Fólk 2. júlí 2021 08:34

Elsa til Florealis

Elsa Birnudóttir Thorsteinsson hefur verið ráðin til Florealis sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála.

Ritstjórn
Elsa Birnudóttir Thorsteinsson
Aðsend mynd

Elsa Birnudóttir Thorsteinsson hefur verið ráðin til Florealissem framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála. Elsa kemur til með að stýra áframhaldandi markaðssókn Florealis á Íslandi auk þess að styðja við vöxt Florealis á erlendum mörkuðum í samstarfi við aðra stjórnendur.

„Það er mjög ánægjulegt að fá Elsu til liðs við okkur. Við höfum skapað okkur skýra sérstöðu á Íslandi sem eina félagið sem bíður upp á lyf í flokki jurtalyfja. Elsa hefur víðtæka reynslu af sölu- og markaðssetningu sem mun nýtast félaginu vel og þekking hennar á hagnýtingu tæknilausna til að styðja við sölu-, markaðs- og þjónustumál mun styðja enn frekar við vöxt okkar á markaði“ segir Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi Florealis.

Elsa hefur reynslu af sölu- og markaðsmálum, stefnumótun og stjórnun eftir ríflega 20 ára starfsferil. Hún starfaði meðal annars sem forstöðumaður verslana- og markaðssviðs Lyfju áður en hún tók við sem forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá Reiknistofu bankanna. Þar áður starfaði hún hjá Origo, þá Nýherja, sem framkvæmdastjóri smásölusviðs og markaðsstjóri Nýherja og dótturfélaga.

„Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað hjá Íslendingum um notkun jurtalyfja til að bæta lífgæði og hefur Florealis unnið þar öflugt frumkvöðlastarf síðustu ár. Florealis hefur skapað sér sterka stöðu á markaði og er í fararbroddi á sínu sviði. Það verður gaman að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og þróun fyrirtækisins með þeim öfluga hópi sem þar starfar” segir Elsa Birnudóttir Thorsteinsson.

Í fréttatilkynningu segir að Florealis hafi fengið góðar viðtökur frá því að fyrsta lyfið kom á markað og hafi verið í stöðugum vexti síðan. Jurtalyfin, sem fást án lyfseðils, eru við fjölbreyttum vandamálum á borð við kvíða, svefntruflanir, mígreni, blöðrubólgu, liðverki ásamt sterkri kvenvörulínu.