Banca Monte dei Paschi di Siena, elsti banki í heimi er í miklum fjárhagskröggum. Einungis eitt ár er liðið frá því að bankinn sagði upp 10 prósent allra starfsmanna. Núna er gerð krafa um að bankinn, sem starfræktur er á Ítalíu, auki eigið fé sitt. Einn möguleikinn sem í stöðunni er ku vera sá að ítalska ríkið taki bankann yfir.

Evrópusambandið telur að bankinn þurfi 2,5 milljarða evra í nýtt eigið fé. Það jafngildir 408 milljörðum íslenskra króna. Upphæðin er tvöföld sú sem eigendur bankans hafa sagt að hann þurfi, eftir því sem fram kemur í frétt Reuters.

Banca Monte dei Paschi hefur verið í vandræðum allt frá árinu 2008 en þá fékk hann fjárveitingu frá ítalska ríkinu. Tap bankans á tveimur síðustu árum hefur numið 8 milljörðum evra, eða 1300 milljörðum króna. Ekki er talið að hann verði rekinn réttu megin við núllið fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2015.

Eins og fyrr segir er bankinn sá elsti í heimi, stofnaður 1472.