Elstu fyrirtæki landsins sem eru á lista Creditinfo yfir þau sem skara fram úr voru stofnuð um þarsíðustu aldamót og því rúmlega 100 ára gömul.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Hákons Stefánssonar, framkvæmdastjóra Creditinfo, við spurningum á Spyr.is sem vörðuðu framúrskarandi fyrirtækisins landsins. Á lista Creditinfo yfir þau fyrirtæki sem skara fram úr eru 358. Meðalaldur fyrirtækjanna er 30 ár.

Eiginfjárhlutfallið að meðaltali 61%

Creditinfo afhenti þremur fyrirtækjum sem sérstaklega sköruðu fram úr viðurkenningu á föstudag í síðustu viku. Verðlaunin fengu lyfjasölufyrirtækið Medis í Hafnarfirði, sem vermir efsta sætið á listanum í ár. Kælismiðjan Frost á Akureyri hlaut viðurkenningu fyrir mestu hækkun á listanum undanfarin þrjú ár og byggingaverktakinn Alefli úr Mosfellsbæ hlaut síðan verðlaun fyrir að vera efst fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð.

Listinn sýnir hvaða íslensk fyrirtæki fá bestu einkunn í styrk- og stöðugleikamati Creditinfo m.v. ýmsar lykiltölur og breytur sem unnar eru upp úr ársreikningum síðustu þriggja ára.

Langflest þessara framúrskarandi fyrirtækja eru á höfuðborgarsvæðinu en fæst á Vestfjörðum. Eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna 358 á listanum í ár er að meðaltali 61% og samanlagður hagnaður þeirra á síðasta ári var 90 milljarðar. Miðgildi hagnaðar var hins vegar 39 milljónir króna.