Töluverður munur er milli aldurshópa á því hvernig fólk vill að svigrúm í samningum við kröfuhafa föllnu bankanna yrði nýtt ef það myndi skapast. Þetta sýnir skoðanakönnun sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið. Niðurstöður könnunarinnar voru birtar í Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag.

Þegar rýnt er í tölurnar eftir aldri svarenda kemur í ljós að flestir þeirra sem myndu vilja að þetta svigrúm yrði nýtt til að lækka verðtryggðar skuldir heimilanna eru í aldurshópnum 30-49 ára. 66,7% þeirra vilja að svigrúmið yrði nýtt til að lækka verðtryggðar skuldir en einungis 30,6% vilja að það yrði nýtt til að lækka skuldir ríkisins.

60,1% þeirra sem eru á aldrinum 50-67 ára vill að svigrúmið yrði nýtt til að lækka verðtryggðar skuldir, en einungis 51,7% þeirra sem eru yfir 67 ára og 48,1% þeirra sem eru undir þrítugu.

Þessi aldursskipting kemur ekki á óvart þegar horft er á tölur yfir þá sem hafa leitað aðstoðar hjá Umboðsmanni skuldara á síðastliðnum árum. Í fyrra voru til dæmis 81,3% þeirra sem sóttu um greiðsluaðlögun á aldrinum 26-55 ára. Langflestir, eða 33,3%, voru í aldurshópnum 36-45 ára. Aftur á móti eru einungis 4,7% skjólstæðinga Umboðsmanns skuldara undir 25 ára og 5,2% yfir 66 ára aldri.

Ítarlega frétt um könnunina má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .