Fjárfestingarsjóðirnir Stefnir - Eignastýringarsjóður og Stefnir - Samval voru sameinaðir í gær undir nafni síðarnefnds sjóðs.

Við sameininguna tekur Samval við öllum eignum og skuldbindingum Eignastýringarsjóðsins, sem verður slitið. Eignastýringarsjóðurinn er elsti sjóður landsins, en hann var stofnaður árið 1986 og hét upphaflega Einingabréf 1 hjá Kaupþingi. Samval var stofnaður árið 1996. Tæplega fjögur þúsund hlutdeildarskírteinishafar voru í Samval fyrir sameininguna, með um fjögur þúsund hlutdeildarskírteinishöfum. Með sameiningunni bætast við tæplega þúsund manns.

Samkvæmt tilkynningu frá Stefni eru breyttar áherslur í framboði sjóða til einstaklinga Stefnis ástæða sameiningarinnar.

Eignir Samvals eru um 7,5 milljarðar króna en eignir Eignastýringarsjóðsins eru tæplega 900 milljónir. Sameinaður sjóður verður rúmlega 8,5 milljarðar að stærð.

Samval fjárfestir samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni í þeim eignaflokkum sem þykja henta best á hverjum tíma. Þar má nefna ríkisskuldabréf, hlutabréf og félög sem fyrirhugað er að skrá á hlutabréfamarkað en til að auka áhættudreifingu er einnig fjárfest í öðrum sjóðum.

Umsýsluþóknun sjóðanna tveggja er sú sama en stærðarhagkvæmni er nokkur í hinum sameinaða sjóði og sameiningin því talin til hagsbóta fyrir hlutdeildarskírteinishafa Eignastýringarsjóðs.