*

mánudagur, 20. september 2021
Innlent 28. júní 2020 15:04

Eltingaleikur við reglugerðir

Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknarstjóri Zymetech og Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segja að framtíð fyrirtækisins sé björt.

Magdalena A. Torfadóttir
Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Zymetech og Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknarstjóri Zymetech.
Eyþór Árnason

Nýsköpunarfyrirtækið Zymetech sérhæfir sig í að framleiða vörur sem unnar eru úr meltingarensímum úr þorski. Meðal varanna sem fyrirtækið framleiðir er munnúði sem nefnist PreCold og virkar sem vörn gegn kvefi og ýmsar snyrtivörur. Árið 2016 sameinuðust fyrirtækin Zymetech og sænska fyrirtækið Enzymatica en hið síðarnefnda er skráð á Nasdaq First North markaðinn.

Zymetech selur vörurnar sínar í Evrópu og Asíu. Ásgeir segir að evrópumarkaðurinn sé þó langstærsti markaðurinn. „Evrópumarkaðurinn er langstærsti markaðurinn okkar en við höfum líka gert samninga víða annars staðar og erum að byggja upp sambönd utan Evrópu. En við höfum þó aðallega verið að einblína á Evrópu og þar er áfram verk að vinna. Við höfum verið að gera samninga í Þýskalandi, Austurríki, Bretlandi og Skandinavíu. Í Þýskalandi erum við í samstarfi við mjög stórt lyfjafyrirtæki sem heitir Stada. Það er eitt það stærsta í þessum geira," segir Ásgeir og bætir við að regluverkið í Evrópu sé þó mjög strangt.

„Reglurnar geta verið töluvert mismunandi milli landa því þó það séu sérstakar reglugerðir í Evrópu um lækningartæki þá geta löndin sett sínar eigin reglur og gengið lengra heldur en reglurnar kveða á um," segir Ásgeir og bætir við að það taki oft töluverðan tíma að skrá lækningartækin í hverju landi fyrir sig. „Þetta er hálfger eltingaleikur við þessar reglugerðir en ég held þó að það sem menn eru að sjá í þessum viljayfirlýsingum um samstarf er mikill vilji en það tekur þó tíma að fara í gegnum reglugerðaundirbúninginn."

Framtíðin björt

Hingað til hefur Zymetech verið að einblína á PreCold vöruna sem og aðrar snyrtivörur. Aðspurð hvort þau telji að fyrirtækið muni þegar fram líða stundir þróa og markaðssetja nýjar vörur segir Ágústa að það muni tvímælalaust gerast. „Já alveg tvímælalaust. Við erum nú þegar að þróa nýjar vörur og það eru aðrar lækningarvörur í ferli. Þannig að framtíðin í þessu er mjög björt. Við erum jafnframt með snyrtivörur í þróun sem við viljum koma á alþjóðamarkað. Við höfum einfaldlega ekki haft tíma til að koma þeim á markaðinn því hingað til höfum við verið að einblína á lækningarvörurnar."

Ásgeir bætir við að það séu mörg verkefni í bígerð hjá fyrirtækinu en það ætli þó um sinn að einbeita sér að því að koma vörunum sem búið er að þróa á markað.

„Fókusinn núna er á því að auglýsa okkar einstöku vörur eins og til dæmis PreCold og koma henni víðar að, því hún er grunnurinn. Zymetech stendur frammi fyrir töluverðum fjárfestingum á þessu ári og næstu 2 árum vegna framleiðsluaukningar. Þetta er bæði vegna nýrra snyrtivörusamninga erlendis og samninga um sölu á ColdZyme (PreCold) inn á ný markaðssvæði. Félagið þarf jafnframt að ráða starfsfólk til að sinna framleiðslu á ensímum og gæðaskoðun. En framtíð fyrirtækisins er mjög björt og við höfum komist yfir marga mjög erfiða hjalla," segir Ásgeir að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

 

Stikkorð: Nýsköpun Zymetech