SWIPE Media hefur fengið til liðs við sig Elvar Andra Guðmundsson, en hann mun sinna hlutverki markaðssérfræðings hjá fyrirtækinu. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.

Elvar starfaði áður hjá auglýsingastofunni Sahara sem samfélagsmiðlafulltrúi, en hann er einnig stofnandi fyrirtækisins Tjatt ehf.

„Elvar Andri er fyrst og fremst góður gaur sem er þægilegt að vinna með, en ekki skemmir fyrir að hann er einstaklega hæfileikaríkur og mun hjálpa okkur í þeim spennandi verkefnum sem eru framundan,“ segir Gunnar Birgisson, framkvæmdastjóri SWIPE Media, í tilkynningu. „Elvar býr yfir mikilli hæfni á samfélagsmiðlum og fleiri sviðum sem mun styrkja teymið og við erum ótrúlega spennt fyrir því að fá hann til liðs við okkur.“

SWIPE Media er samfélagsmiðlahús sem sérhæfir sig í uppbyggingu vörumerkja með áhrifavöldum hér á landi og erlendis. Sér fyrirtækið meðal annars um að tengja áhrifavalda við vörumerki, ásamt því að framleiða og dreifa afþreyingarefni fyrir samfélagsmiðla þeirra.