Elvar Ingi Þorsteinsson og Þorgerður Elva Magnúsdóttir hófu nýverið störf hjá Birtingahúsinu. Þau munu sinna birtingaráðgjöf og markaðsgreiningum fyrir viðskiptavini félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu. Birtingahúsið var stofnað árið 2000 og veitir faglega og óháða ráðgjöf um auglýsingabirtingar, markaðssetningu og uppbyggingu auglýsingaherferða.

Elvar er fæddur og uppalinn í Neskaupstað. Hann hefur sinnt ýmsum og ólíkum störfum í gegnum tíðina, meðal annars hjá Síldarvinnslunni þar sem hann starfaði við sjómennsku og svo síðar verkstjórn. Hann stofnaði ThorMedia sem sérhæfði sig í birtingum á samfélagsmiðlum. Elvar útskrifaðist úr viðskiptafræði með áherslu á markaðsmál og alþjóðaviðskipti frá viðskiptaháskólanum í Aarhus Danmörku árið 2015.

Þorgerður kemur til starfa eftir að hafa sinnt afleysingastörfum hjá ÍMARK þar sem hún var verkefnastjóri. Áður vann hún hjá Lyfjaveri og Bianco Footwear Iceland þar sem hún sinnti sölu- og markaðsmálum. Þorgerður Elva Magnúsdóttir er með BSc. í viðskiptafræði með áherslu á reikningsskil og endurskoðun. Hún er að ljúka MSc. í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.

Hugi Sævarsson, framkvæmdastjóri Birtingahússins:

„Þorgerður og Elvar smella afskaplega vel inn í okkar öflugu og stækkandi liðsheild. Við höfum á að skipa spennandi blöndu starfsfólks sem gerir starfið og vinnuumhverfið lifandi og skemmtilegt.  Blanda af reynsluboltum og efnilegu fólki sem er sífellt að leitast við að bæta sig og sitt starf, og þar með hámarka árangur samstarfsaðila okkar.“