Hagnaður hjá Símanum á öðrum ársfjórðungi ársins 2016 nam 716 milljónum samanborið við 532 milljónir króna hagnað yfir sama tímabil árið 2015. Tekjur Símans héldust nokkuð stöðugar á milli ára og námu á öðrum ársfjórðungi þessa árs um 7.351 milljónum króna.

Aukinn hagnaður skýrist meðal annars af því að áhrif fjármagnsliða eru jákvæðari á öðrum ársfjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Hrein fjármagnsgjöld námu 163 milljónum króna í ár, en voru 474 milljónir króna á sama tímabili árið 2015. Rekstrarhagnaður dróst hins vegar saman milli ára og nam 1.032 milljónum króna á öðrum fjórðungi þessa árs, en var 1.226 milljónir á sama tíma í fyrra. Þegar horft er til fyrri helmings ársins nam rekstrarhagnaður í ár 1.770 milljónum, en var 2.305 milljónir króna í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam tæpum 1,95 milljörðum - sem er lægra en fyrir sama tímabil í fyrra, þegar EBITDA var 2,06 milljarðar. Eigið fé símans í lok annars ársfjórðungs árið 2016 var 32,5 milljarðar - eiginfjárhlutfall Símans hf. var 52,4% í lok ársfjórðungsins.

Vaxtaberandi skuldir fyrirtækisins í lok annars ársfjórðungs 2016 voru 23,6 milljarðar króna miðað við 24,2 milljarða á sama tíma í fyrra.

Unnið að því að lækka kostnað

Orri Hauksson forstjóri Símans segir í yfirlýsingu að afkoma Símans hafi breyst til batnaðar á milli ársfjórðunga. Unnið var að hnitmiðaðri rekstri og lægri kostnaði að sögn Orra.

Einnig hafði EM 2016 áhrif á starfsemi Símans á öðrum ársfjórðungi, en haft er eftir Orra að fyrirtækið hafi sannað sig sem afþreyingarfyrirtæki í sjónvarpi og verði áfram byggt á þeim grunni Símans.