Evrópumótið í knattspyrnu karla fer fram um þessar mundir í Frakklandi og íslenska landsliðið er í fyrsta skipti meðal þátttakenda. Þjóðin virðist standa á öndinni af spennu og fyrirtæki landsins hafa mörg hver ekki farið varhluta af því sem viðmælendur Viðskiptablaðsins hafa meðal annars lýst sem „tryllingi“ í aðdraganda mótsins.

„Þetta er bara rugl!“  segir Valdimar Pétur Magnússon eigandi Jóa Útherja, aðspurður um sölu á landsliðstreyjum íslenska landsliðsins.. „Ég hreinlega veit ekki hvaða orð ég á að nota en ég hef verið að lýsa þessu sem trylltu ástandi.“ Valdimar segir alltaf vera söluaukningu á fótboltatengdum vörum í kringum öll stórmót en hann hafi hinsvegar aldrei nokkurn tíman séð neitt sambærilegt þessu.

„Ég ímynda mér allavegana að þetta sé heimsmet í treyjusölu miðað við höfðatölu. Það hafa örugglega aldrei selst jafn margar treyjur per íbúa í öðrum löndum. Ef ég ætti að giska þá myndi ég skjóta á við höfum selt í kringum 4000 treyjur frá því mars en ég hef heyrt að heildarsalan í landinu sé í kringum 10-15000 treyjur,“ segir Valdimar.

Skyndbitinn er vinsæll þegar svona stórir íþróttaviðburðir eru í gangi og býst Dominos við miklum önnum, sérstaklega þegar Ísland er að spila.

„Einn stærsti íþróttaviðburður sem hefur hefur haft áhrif á sölutölur okkar var landsliðsleikur Ísland – Króatíu í undankeppni Heimsmeistaramótsins. Þá var hringt í símanúmerið 58-12345 rúmlega 29.000 sinnum,“ segir Anna Fríða Gísladóttir, starfsmaður markaðsdeildar Dominos.

Hamborgarar, gos og snakk

Brynjar Helgi Ingólfsson, rekstrarstjóri innkaupa- og markaðssviðs Hagkaupa, segir fyrirtækið sjá töluverða aukningu í sölu skyndibita þegar á stórmótum stendur.  „Sala á hamborgurum, vængjum, rifjum sem einfalt og fljótlegt er að grilla ásamt tilbúnum eldgrilluðum kjúkling, sushi og frosnum pizzum eykst töluvert.   Einnig sjáum við marktækt meiri sölu í snakki og gosi á meðan stórmót eru í gangi,“ segir hann og bætir við að stemningsvörur á borð við trefla, húfur, buff, gleraugu, fótboltamyndir og fótbolta hafi einnig orðið mjög vinsælar eftir að umfjöllunin um EM fór á fullt.

Sigrún Ósk, aðstoðarforstjóri ÁTVR,  tekur undir orð annarra í matar og drykkjarvörugeiranum og segir fyrirtækið vissulega búa sig undir töluvert álag í kringum Evrópumótið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .