Óhætt er að segja að Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hafi haft stórfelld áhrif á neyslumynstur Íslendinga. Samkvæmt fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar má sjá að Íslendingar gerðu vel við sig, og nýttu tækifærið til þess að uppfæra húsgögn og raftæki á heimilum sínum.

Velta á dagvöruverslun jókst um 8,3% á breytilegu verðlagi í júní, sé miðað við sama mánuð í fyrra. Sala áfengis fór í nýjar hæðir, en hún jókst um 26,2% á breytilegu verðlagi í júní. Samkvæmt tölfræði Vínbúðanna voru seldir 14% fleiri lítrar en í júní í fyrra. Rekja má breytingarnar til hátíðarhalda tengdum Evrópumótinu.

Óhætt er að segja að margir hafi nýtt aðstæður til þess að uppfæra húsgögn og raftæki. Í júní var mest veltuaukning í flokki húsgagna, 38,6% meira en í júní í fyrra á föstu verðlagi. Verðlag húsgagna var 1,5% lægra en á sama tíma í fyrra og jókst velta því um 40,7% á föstu verðlagi. Veltuaukning í flokki brúnna raftækja jókst um 30% og um 13,8% í fataverslun á föstu verðlagi.

Evrópumeistaramótið hafði aftur á móti ekki jákvæð áhrif á alla geira. Samkvæmt heimildum rannsóknarsetursins dróst sala á algengum vörum til viðhalds húsa saman. Sömu sögu er að segja um blóm og garðplöntur. Tjaldsvæði landsins voru einnig fremur fásetin.