Sigurður G. Guðjónsson lögmaður hefur lengi verið áberandi í umræðunni. Á þrjátíu ára lögmannsferli sínum hefur hann varið marga umdeilda menn. Utan lögmennskunnar hefur hann vasast í viðskiptum, sér í lagi í fjölmiðlaheiminum og varð á síðasta ári hluthafaeigandi í DV.

Þú hefur fengist við margt utan lögmennskunnar, þú varst meðal annars kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar fjórum sinnum. Gætirðu hugsað þér að gera það aftur?

„Nei, þetta er nú komið gott,“ segir Sigurður og hlær.

Ólafur Ragnar hefur breytt embætti forseta, finnst þér það jákvætt?

„Já, ég held að enginn forseti gæti stigið til baka og fært embættið í hið gamla form opinbers afstöðuleysis í þjóðmálum. Fram til ársins 2004 hafði enginn forseti beitt synjunarrétti 26. gr. stjórnarskrárinnar. Hafði þó verið skorað á Vigdísi Finnbogadóttur forseta með formlegum hætti að staðfesta ekki lög um Evrópska efnahagssvæðið sem Alþingi samþykkti 1993, m.a. vegna þess framsals á fullveldi ríkisins sem lögin fólu í sér. Vigdís varð ekki við þeirri áskorun. Ólafur Ragnar ákvað sem forseti að synja fjölmiðlalögum vorið 2004 og hefur síðan þá beitt synjunarrétti í tvígang. Hann hefur því á embættisferli sínum veitt þjóðinni vald til að taka afstöðu til umdeildra mála. Aukið lýðræðið. Það er auðvitað gott en betra hefði verið ef Alþingi hefði borið gæfu til að breyta 26. grein stjórnarskrárinnar á þann veg eftir 2004 að full vissa væri um hvenær og að uppfylltum hvaða skilyrðum þjóðaratkvæðagreiðsla komi til greina um einstök mál,“ segir Sigurður.

Það á ekki að krukka í stjórnarskrána

„Maður finnur það í umræðunni í dag að fólk vill auka lýðræðið. Píratar eru samkvæmt skoðunarkönnunum stærsti stjórnmálaflokkurinn einmitt vegna þess að þeir eru alltaf að tala um að það þurfi að auka lýðræði. Til þess þarf að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni, eins og mér heyrist Píratar og einhverjir fleiri stjórnmálamenn vilja. Ég held að kannski ein stærstu mistök sem Samfylkingin og Vinstri græn gerðu á síðasta kjörtímabili var að reyna að breyta stjórnskipan landsins í heild sinni. Stjórnskipan Íslands olli ekki hruninu. Stjórnskipanin hélt, við gátum haldið alþingiskosningar hér á árinu 2009, þar sem kjósendur kvöddu hrunstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og kaus yfir sig vinstri stjórn, sem send var út í hafsauga í kosningum til Alþingis 2013. Það er aftur á móti ýmislegt sem þarf að laga í stjórnarskránni og að því er unnið nú með sama hætti og áður hefur verið gert. Stjórnarskrá á að vera einfalt, skýrt plagg sem geymir ákvæði um stjórnskipan ríkisins, rétt þess til skattheimtu og réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu,“ segir Sigurður.

Ítarlegt viðtal við Sigurð G. Guðjónsson er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .