Plötuútgefandinn EMI sendi út afkomuviðvörun í dag, þar sem kemur fram að fyrirtækið væntir þess að á fyrri helmingi fjárhagsársins muni tekjur fyrirtækisins minnka og hagnaður verði um þriðjungi lægri en á sama tíma í fyrra, segir í frétt Dow Jones.

EMI segir að ástæða afkomuviðvörunnar sé aukin áhersla á plötuútgáfu á síðari helmingi fjárhagsársins.

EMI býst við að tekjur fyrirtækisins muni minnka um 3% og að hagnaður muni minnka um 34%.Hagnaður EMI nam 41 milljónum punda (5,2 milljarðar króna)á fyrri helmingi árs 2005, en samkvæmt afkomuviðvörun EMI er spáð að hagnaður nemi 27 milljónum punda (3,4 milljarða króna) á fyrri helmingi fjárhagsárs 2006, sem lýkur 30. september.

EMI býst við að útgáfur frá Norah Jones, Robbie Williams, Keith Urban og Joss Stone muni bæta afkomu fyrirtækisins á síðari helmingi fjárhagsársins.

Fyrr á árinu var hætt við samruna EMI og Warner Music Group vegna óhagstæðs úrskurðar samkeppniseftirlits Evrópusambandsins.