Flugfélagið Emirates sem staðsett er í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hyggst vera með kynningarfund fyrir flugmenn á Hilton Reykjavík Nordica hótel 19. nóvember næstkomandi. Flugfélagið hélt prufur fyrir flugfreyjur á Radison Blu Hótel Sögu í maí árið 2015 og mættu um 50 manns, en að lokum eftir strangt ráðningarferli voru 4 valdar.

Á heimasíðu Emirates segir að félagið haldi reglulega kynningarfundi víða um heim þar sem félagið veiti upplýsingar um starfsemi sína og hvernig það velur flugmenn. Segir félagið kynningarfundina vera frábært tækifæri til að læra meira um hlutverk flugmanna, hvaða laun og kjör séu í boði og tala við fulltrúa sína um hvernig er að búa og vinna í Dubai.

Skilyrði fyrir flugmenn hjá félaginu er að hafa að lágmarki 2.000 flugtíma í fjölhreyfla vél sem vegur yfir 20 tonn eða yfir 3.000 flugtíma í vélum milli 10 og 20 tonna auk auk heilbrigðisvottorðs, enskukunnáttu og hafa flogið að minnsta kosti 150 tíma á síðustu 12 mánuðum.

Flugstjórar hjá félaginu verða hins vegar að hafa að lágmarki 7.000 heildarflugtíma, auk þess að hafa stýrt flugvél með áhöfn í meira en 3.000 tíma með 50 tonna lágmarksflugtaksþyngd. Enskukunnáttukröfurnar eru jafnframt hærri fyrir flugstjóra, auk frekari krafna sem hægt er að lesa á heimasíðu Emirates .