Emmessís skilaði 226,4 milljóna króna hagnaði í fyrra, sem er töluvert betri afkoma en árið 2011 þegar félagið var rekið með 244,7 milljóna króna tapi.

Afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var töluvert betri en árið á undan, var jákvæð um 12,1 milljón króna, en var neikvæð um 124,6 milljónir árið 2011. Mestur er munurinn þó á fjármagnsliðunum. Vaxtagjöld og bankakostnaður námu 28,6 milljónum í stað 75,5 milljóna árið 2011 og gengistap nam 8,4 milljónum í stað 20,4 milljóna árið 2011.

Stærsti einstaki liðurinn var þó leiðrétting á skuldum upp á 274,1 milljón króna í ár. Án þessarar leiðréttingar væri 47,7 milljóna króna tap á rekstri fyrirtækisins. Eignir Emmessíss námu 403 milljónum króna um síðustu áramót, skuldir námu 819,1 milljón og eigið fé var því neikvætt um 416,1 milljón króna.