Emmessís tapaði um 50,6 milljónum króna á síðasta rekstrarári, samanborið við 48,3 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu 923 milljónum króna samanborið við 877 milljónir króna árið áður. EBITDA félagsins nam 21,2 milljónum króna í árslok 2017. Eignir ísframleiðandans námu 482,6 milljónum króna um síðustu áramót og eigið fé félagsins var neikvætt um 82,2 milljónir króna.

Laun og launatengd gjöld til starfsmanna námu 291,1 milljón króna, en 30 starfsmenn störfuðu hjá félaginu í lok síðasta árs. Hnetutoppur ehf. á stærstan hlut í Emmessís eða 84% hlut. Ragnar Birgisson var næststærsti hluthafi en hann átti 14% hlut í félaginu í árslok 2017. Í sumar lét Ragnar hins vegar af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins og seldi allan eignarhlut sinn í félaginu.