

Ísframleiðandinn Emmessís hefur stigið stórt skref í átt að umhverfisvænni umbúðum með því að skipta út plastísboxunum, en í stað plastísboxanna verður ísinn nú í pappaumbúðum. Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Emmessís, segir að frá því að hann tók við stjórnartaumum fyrirtækisins í byrjun sumars hafi eitt af helstu áhersluatriðum hans verið breytt stefna í umhverfismálum, og þar á meðal að koma umbúðum félagsins í umhverfisvænni umbúðir.
„Við höfum verið að gjörbreyta okkar stefnu í þessum umbúðamálum. Við áttuðum okkur á því að plastumbúðir tilheyrðu fortíðinni og það væri okkar ábyrgð að gera umbúðirnar umhverfisvænni. Neytendur hafa í síauknum mæli kallað eftir því að umbúðir utan um matvæli séu eins umhverfisvæn og kostur er á. Boxísinn okkar og fleiri ísframleiðenda hefur verið í plastumbúðum frá því að elstu menn muna og okkur þótti alveg kominn tími til að skipta plastinu út. Þetta er fyrsta skrefið í þessari stefnubreytingu hjá okkur sem miðar að umhverfisvænni framleiðslu og rekstri. Við munum halda áfram að útrýma plastnotkun okkar eins mikið og við mögulega getum."
Skiptin úr plasti í pappa eru þó ekki það eina sem tengist hinum nýju umbúðum sem tekur breytingum vegna umhverfissjónarmiða.
„Við erum einnig að minnka umbúðirnar okkar og þannig að draga úr matarsóun. Hér áður var mun algengara að fólk ætti stórar frystikistur með miklu plássi í, en frystipláss fólks fer sífellt minnkandi og flestir láta sér nægja litla frystiplássið í ísskápum. Við erum því að fara úr því að vera með 1,5 lítra ísbox yfir í að hafa tvær stærðir af pappaboxum í boði. Annars vegar 1,3 lítra box og hins vegar 0,5 lítra. Þannig getum við dregið úr matarsóun, en hver kannast ekki við að hafa neyðst til að henda hálftómu ísboxi úr frystinum vegna þess hve mikið pláss boxið tók?
Minni umbúðirnar verða eingöngu úr pappa en stærri umbúðirnar verða með plastinnsigli, en þess utan alveg úr pappa. Í heildina erum við að fara úr 100% plasti yfir í 83% pappa. Umbúðirnar eru því töluvert umhverfisvænni en áður og svo smakkast ísinn líka mun betur í pappa heldur en í plasti," segir Pálmi kíminn.
Pálmi segir að ofangreint verkefni hafi tekið töluverðan tíma og leita hafi þurft lausna víða um heim.
„Það er mikil vinna á bak við þessa breytingu. Stór hluti af ísmarkaðnum hefur ekki verið búinn undir þessar breytingar, það eru helst þessi stóru merki eins og Ben & Jerry's og Häagen-Dazs sem hafa verið að stíga þessi skref í átt að umhverfisvænni umbúðum. Sem dæmi má nefna að á dögunum var ég staddur í stórri matvöruverslun í Danmörku og þar voru tveir gangar fullir af boxís en ekki einn einasti var í pappaumbúðum, heldur voru þeir allir í plastumbúðum. Við erum fyrsti stóri innlendi ísframleiðandinn til að segja skilið við plastið í boxísnum og við erum einnig með þeim fyrstu á Norðurlöndunum."
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er: