Bandaríska fasteignafélagið Malkin Holdings skilaði í gær inn gögnum í tengslum við stofnun og skráningu hluta af eignasafni félagsins á markað. Fyrirtækið ætlar að stofna nýtt félag og hafa inni í því nokkrar byggingar á Manhattan-eyju. Þar á meðal er Empire State-byggingin sem er ein af þekktustu byggingum Bandaríkjanna.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Á viðskiptafréttavef bandarísku fréttastofunnar CNN kemur fram að verðmæti Empire State-byggingarinnar nemi 2,5 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 300 milljarða íslenskra króna. Verðmæti tveggja annarra fasteigna í félaginu eru langtum lægra, einn milljarður dala.

Smíði Empire State-byggingarinnar hófst árið 1929 og lauk henni tveimur árum síðar. Byggingin er 102 hæðir og var hún hæsta bygging í heimi þar til smíði World Trade Center lauk árið 1972.

Bandaríski auðkýfingurinn Donald Trump átti bygginguna að mestu leyti á árum áður eða þar til Malkin Holdings keypti hana með manni og mús fyrir 57,5 milljónir dala árið 2002.

Empire State-byggingin hefur er eitt af þekktustu kennileitum Bandaríkjanna og hefur komið við sögu í fjölda þekktra kvikmynda, þar á meðal kleif risaapinn King Kong hana auk þess sem hún kemur fyrir í Sleepless in Seattle.