Tíu hæst launuðu sjóðsstjórar vogunarsjóða í heiminum fengu meira greitt í laun á síðasta ári heldur en sem nemur samanlagðri landsframleiðslu Afganistans og Mongólíu.

Samkvæmt útreikningum tímaritsins Trader Monthly, námu launatekjur sjóðsstjóranna samtals um 14 milljarðar Bandaríkjadala.

Hæstar tekjur á árinu hafði John Paulson hjá vogunarsjóðinum Harbinger Capital í New York, eða sem nemur 3 milljörðum dala, jafnmikið og verg landframleiðsla Rúanda og Kirgisistan. Sérfræðingar sögðu að Paulson hefði slegið nýtt met á Wall Street með þessum launatekjum. Hann sá fyrir verðlækkun á bandarískum húsnæðismarkaði og afskriftir fjármálastofnana á fasteignatryggðum skuldabréfavafningum.

Hinar gríðarmiklu launatekjur sjóðsstjóranna koma á sama tíma og vogunarsjóðir sitja undir ámæli frá stjórnmálamönnum víðsvegar um heim fyrir ósiðlega - og jafnvel ólöglega - skortsölu á hlutabréfum.

Í frétt Financial Times er meðal annars bent á að yfirvöld á Íslandi, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi séu að rannsaka hvort neikvæðum orðrómi hafi verið drefit með skipulögðum hætti af vogunarsjóðum í því augnamiði að hafa áhrif á verðmyndun á hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði.

Flestir sjóðsstjóranir eiga það sameiginlegt að hafa hagnast á því að spá fyrir um hrunið á bandarískum fasteignamarkaði með fjármálagjörninga í tengslum við undirmálslán, sem var upphaf lánsfjárkreppunnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Sjóðsstjórar vogunarsjóða taka venjulega um 20% af hagnaði viðskiptavina sinna í þóknun fyrir störf sín og því ljóst að miklar upphæðir eru í húfi ef fjárfestingar þeirra skila mikilli ávöxtun.

Fjórir af tíu hæst launuðu sjóðsstjórunum voru staðsettir í London.