Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa Bandaríkin verið helsti boðberi hugsjónarinnar um frjáls viðskipti. Þjóðin hefur staðið þétt við bakið á alþjóðastofnunum og verið leiðandi í gerð fríverslunarsamninga á borð við GATT og NATP. Nú er öldin önnur og óttast sumir að viðskiptastríð við Kína kunni að vera upphafið að endalokum Amerísku aldarinnar.

Viðskiptastríð Kína og Bandaríkjanna ætti ekki að koma á óvart því Trump dró enga dul á þá skoðun sína í aðdraganda forsetakosninganna að viðskipti landanna hefðu skaðað hagsmuni Bandaríkjanna. Eitt af fyrstu verkum Trumps í embætti forseta var að hleypa af stokkunum rannsókn á viðskiptastefnu kínverskra stjórnvalda. Rannsóknarnefndin skilaði áliti sínu í fyrra og lagði til að tollar yrðu settir á kínverskar vörur að andvirði milljarða dollara og Trump tók nefndina á orðinu.

Kína svaraði í sömu mynt og spennan stigmagnaðist þar til í desember sl. þegar þjóðirnar sömdu um vopnahlé svo viðræður um nýjan viðskiptasamning gætu haldið áfram ótruflað. Væntingar á markaði um að viðræðunum myndi ljúka með samningi fóru vaxandi í allan vetur þar til bandarísk stjórnvöld ákváðu í byrjun maí að hækka tolla úr 5% í 25% á kínverskar vörur að andvirði 200 milljarða dollara. Síðan þá hafa vonir um farsælan endi milliríkjadeilunnar horfið eins og dögg fyrir sólu.

Hagfræðingurinn Martin Wolf er mest lesni dálkahöfundur Financial Times. Hann fjallar um viðskiptastríðið í vikunni og spyr hvernig standi á því að Bandaríkin hafi söðlað jafn rækilega um og tali nú gegn lykilsetningum í skipulagi alþjóðlegra viðskipta, bæði í alþjóðarétti og þjóðhagfræði. Að mati Wolfs er viðsnúningurinn ekki bundinn við Trump. Vandinn liggi frekar í andúð almennings á skekktu viðskiptasambandi þjóðanna og það sem verra er, vaxandi andúð á uppgangi og auknum styrk kínversku þjóðarinnar.

Wolf sér merki um þetta viðhorf í breyttri utanríkisstefnu íhaldsmanna. Árið 2005 talaði Robert Zowllick, utanríkisráðherra í stjórn Bush yngri, um að viðskipti þjóðanna myndu leiða til þess að Kína yrði ábyrgur aðili í alþjóðlegu samstarfi. Orðræða núverandi utanríkisráðherra, Mike Pompeo, endurspegli annað viðhorf.

Hingað til hafi frjálslyndir alþjóðasinnar úr röðum íhaldsmanna stutt alþjóðlegar stofnanir til að ákveða leikreglur fyrir alþjóðasamskipti og milliríkjaviðskipti. Utanríkisstefnu bandarískra íhaldsmanna í dag svipar meira stefnu nýlendutímans þar sem markmiðið er ekki að vera „ábyrgur aðili“ heldur gæta eigin hagsmuna – og jafnvel hindra uppgang annarra til að verja eigin yfirburði

Afleiðingar af þessari stefnubreytingu gætu orðið afdrifaríkar og óttast Wolf hið versta í þeim efnum. Hann telur að aðrar þjóðir eigi litla möguleika á að jafna deilur risanna en þær megi ekki heldur skríða í felur. Besti leikurinn sé að taka upp kyndilinn og leiða risann á rétta braut með góðu fordæmi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .