Í gær var greint frá því fjölmiðlum að stærsta bollakökukeðja heims, Crumbs Bake Shop, hafi lokað öllum verslunum sínum og gæti farið í gjaldþrot. Fyrirtækið hefur sagt upp öllum starfsmönnum sínum í 48 verslunum í yfir 10 ríkjum. Crumbs Bake Shop fór á markað í Bandaríkjunum árið 2011, á hápunkti bollakökubólunnar, en hefur síðan þá vegna dræmrar sölu verið afskráð af bandarískum markaði. Sérfræðingar telja að ekki sé um einsdæmi að ræða og spá ekki góðri framtíð fyrir bollakökuna.

Í grein The Guardian er fjallað um málið en þar segir að bollakökuiðnaðurinn var einn af þeim fáum sem óx á meðan á efnahagskreppunni stóð og árið 2010 spilaði hann meira að segja stóran hlut í aukningu á störfum í New York borg.

Í efnahagskreppunni urðu bollakökur sérstaklega vinsælar því um frekar ódýra lúxusvöru var að ræða og varð algjört alþjóðlegt æði fyrir þeim. Bandarískar keðjur eins og Crumbs og Magnolia Bakery huguðu að alþjóðlegum útflutningi.

Samkvæmt skýrslu borða 8% Bandaríkjamanna bollaköku að minnsta kosti einu sinni á tveggja vikna fresti sem er gríðarleg há tala. Hins vegar er tíðni þeirra sem borða kökur, sem bollakökur flokkast undir, að minnka og því gæti bollakakan verið á útleið.

Bollakökur urðu vinsælar því þær voru nýjung í fallegum litum með einstaklingsmiðuðum skreytingum. Hins vegar kemur alltaf eitthvað nýtt æði á markaðinn og núna er verð þeirra að hindra viðskipti en Bandaríkjamenn eru í auknum mæli að dragast að ódýrari eftirrétti: jógúrti.