Flugfélagið Malaysia Airlines var ennþá að jafna sig eftir hvarf flugvélar félagsins í mars síðastliðnum þegar fréttir bárust af því að ætlunarvél flugfélagsins MH17 var skotinn niður í Úkraínu í gær. Hlutabréf félagsins hafa lækkað um 35% og nú velta sérfræðingar fyrir sér hvort um endalok fyrirtækisins sé að ræða.

„Þetta er sorgarleikur ekkert flugfélag hefur nokkurn tímann áður staðið frammi fyrir tveimur slysum af svipaðri stærðargráðu á fjórum mánuðum." segir Moshin Aziz, fluggreiningar sérfræðingur hjá Maybank, í samtali við breska dagblaðið The Guardian . Alls hafa um 540 manns látist í flugslysunum tveimur.

Aziz segir að það skipti ekki máli að slysin séu ekki flugfélaginu að kenna almenningur vilji einfaldlega ekki fljúga með Malaysian Airlines lengur. Eini möguleiki flugfélagsins til að laða að viðskiptavini sé að bjóða upp á mjög hagstætt verð.

Hlutabréf fyrirtækisins hafa fallið um 11% í dag en yfir allt árið hafa þau lækkað um 35%.

Óvíst er hvort flugfélagið geti haldið starfsemi sinni áfram ef hlutabréfaverð falla meira og almenningur treystir sér ekki til að fljúga með flugfélaginu. Dæmi er um að flugslys hafi leitt til endaloka flugfélaga, fimm árum eftir flugslysið þar sem vél Trans World Airlines hrapaði og 230 manns fórust lýsti félagið yfir gjaldþroti og keypti American Airlines fyrirtækið.