Eftir að bandaríski seðlabankinn stuðlaði að björgun fjárfestingabankans Bear Stearns jukust væntingar manna um að hið versta væri afstaðið í lánsfjárkreppunni. Hins vegar fer streita á millibankamarkaði vaxandi á ný. Og hverju sem endalokunum lánsfjárkreppunnar líður telja margir að eftirskjálftar hennar verði ekki síður sársaukafullir.

Samkvæmt Financial Times voru vextir á skiptasamningum sem sýna muninn á daglánum seðlabanka og þriggja mánaða LIBORvöxtum komnir í það stig í byrjun vikunnar sem þeir voru í um miðjan desember í fyrra. Þessi mismunur endurspeglar vilja banka til þess að lána út fé. Það var um það leyti sem að seðlabankar beggja vegna Atlantsála gripu til umsvifamikilla samhæfðra aðgerða til þess að létta af þeirri lausafjárpressu sem yfirleitt myndast við árslok.

Pressan var muni meiri í fyrra en í venjulegu árferði sökum lánsfjárkreppunnar. Fram kemur í Financial Times að vextir á slíkum skiptasamningum hefðu verið komnir í 80,6 punkta í Bandaríkjunum og 75 punkta í Evrópu. Í Bretlandi fóru þeir yfir 100 punkta.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .