Merkur áfangi náðist í dag þegar endanleg útboðslýsing var afhent fulltrúum fjögurra hópa sem taka þátt í samkeppni um réttinn til að hanna, byggja, fjármagna og reka tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel (TRH) við Austurhöfnina í Reykjavík. Þessir fjórir hópar voru valdir í sérstöku forvali sem lauk sl. sumar. Frumhugmyndir þeirra eiga að liggja fyrir eftir mánuð og fyrstu tilboð í byrjun maí. Áætlanir um framkvæmdir og rekstur hafa jafnframt verið endurskoðaðar og miðast nú við að húsið verði tekið formlega í notkun um mitt ár 2009.

Undirbúningur þessa umfangsmikla verkefnis hefur staðið um árabil en kaflaskipti urðu árið 2002 þegar undirritað var samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar. Í kjölfarið var stofnað einkahlutafélagið Austurhöfn-TR til að sjá um framkvæmd verkefnisins. Ákveðið var að ganga til samningskaupa um einkaframkvæmd og lá niðurstaða forvals fyrir í sumar. Töldust allir fjórir hóparnir hæfir sem sendu inn umsókn. Í framhaldinu var unnið að samningskaupalýsingu, þ.e. þeim skilyrðum sem uppfylla þarf vegna verkefnisins. Telst samkeppnin formlega hafin nú þegar fulltrúar hópanna fjögurra hafa fengið gögnin formlega í hendur en áður hafa hóparnir fengið afhent drög og ýmsar upplýsingar, þannig að vinna þeirra við tillögugerð er þegar hafin.