Fyrr á þessu ári voru kynnt til sögunnar frumvarpsdrög um meðferð ríkisaðstoðarmála. Drögin voru sett í samráð í tvígang en í hvorugt skiptið bárust umsagnir um það. Með því er stefnt að því að festa í lög málsmeðferðarreglur er gilda um ríkisaðstoð.

Sem stendur er að finna tvær greinar í samkeppnislögum um efnið auk reglunnar í EES-samningnum. Í fyrrgreindum ákvæðum samkeppnislaga, sem og frumvarpsdrögunum, er gert ráð fyrir því að íslenska ríkið geti ekki orðið bótaskylt vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar. Í rannsókninni sem ESA birti er því velt upp hvort slíkt fyrirkomulag standist samkvæmt EES-samningnum.

„Drögin hafa verið í samráði en það leysir ekki álitamál er varða biðstöðuskylduna og ekki heldur vandann með áðurnefnd réttarfarsleg atriði. Þarna er verið að festa í lög hvernig ríkið á að halda á málum og eiga í samskiptum við þiggjendur aðstoðar. Það er til bóta fyrir ríkið og þiggjendur en það vantar enn reglur um aðgang samkeppnisaðila að dómstólum,“ segir Dóra Sif Tynes lögmaður hjá Advel.

Frumvarpið felur meðal annars í sér lögfestingu valdheimilda ESA gagnvart einkaaðilum í tengslum við upplýsingaöflun stofnunarinnar. Annars vegar er þar að finna heimild til að sekta fyrirtæki um allt að prósent af heildarveltu þeirra ef þau veita ESA rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Þá er heimilt að leggja févíti á fyrirtæki, allt að 5% af meðaldagveltu, ef þau veita ekki réttar upplýsingar innan þess frests sem ESA ákveður. Slíkar sektir munu ekki sæta endurskoðun innlendra dómstóla heldur EFTA-dómstólsins. Þá geyma drögin reglur um samskipti innlendra dómstóla við EFTA-dómstólinn vegna ríkisaðstoðarmála.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .