*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 6. júlí 2019 14:05

Endanlegt kaupverð CCP óvíst

Tæpur helmingur kaupverðs Pearl Abyss á CCP var árangurstengdur og gæti í versta falli orðið að engu.

Júlíus Þór Halldórsson
Hilmar Veigar Pétursson hefur verið forstjóri CCP frá 2004, auk þess að hafa átt 6,5% hlut við söluna til Pearl Abyss í september.
Aðsend mynd

Í ársreikningi Pearl Abyss, móðurfélags CCP, kemur fram að áætlað gangvirði árangurstengdrar greiðslu vegna kaupa á íslenska tölvuleikjaframleiðandanum sé tæpar 24 milljónir bandaríkjadala. Í kaupsamningi var gert ráð fyrir að greiðslan gæti numið að hámarki 200 milljónum dala.

Kaup suður-kóreska tölvuleikjafyrirtækisins Pearl Abyss á íslenska leikjaframleiðandanum CCP í október í fyrra voru söguleg á íslenskum markaði. Kaupverðið var í öllum helstu fjölmiðlum landsins sagt 425 milljónir dala – um 46 milljarðar króna á gengi þess tíma – en í sumum þeirra kom þó fram að ótilgreindur hluti greiðslunnar væri árangurstengdur til tveggja ára.

Salan var meðal annars sögð sú stærsta á íslensku tæknifyrirtæki frá upphafi, þar sem kaupverðið væri 10 milljónum hærra en verð líftæknifyrirtækisins Decode, sem selt var bandarísku lyfjafyrirtæki fyrir 415 milljónir dala árið 2012.

100 milljónir dala að hámarki fyrir hvort ár
Endanlega upphæðin er reiknuð út frá rekstrarhagnaði (EBITDA), en til að til greiðslu komi fyrir árið í ár þarf hann að ná að lágmarki 25 milljónum dala. Fyrir hvern dal umfram það bætast svo fjórir dalir við greiðsluna, og nái rekstrarhagnaðurinn 50 milljónum dala fæst hámarksgreiðsla, 100 milljónir dala.

Á næsta ári verður lágmarkið 40 milljónir dala í rekstrarhagnað og sama hlutfall, fjórir dalir, greitt fyrir hvern dal yfir því upp að því 50 milljónum. Fari rekstrarhagnaður yfir 50 milljónir dala bætast svo fimm dalir við fyrir hvern umfram það, og 100 milljóna hámarkið næst því við 62 milljóna dala rekstrarhagnað það árið.

Pearl Abyss áætlar að greiða aðeins brot af hámarkinu
Í ársreikningi Pearl Abyss Iceland ehf. fyrir síðasta ár kemur fram að miðað við forsendur viðskiptaáætlunar kaupanda sé „áætlað gangvirði væntra greiðslna“ vegna afkomutengda hluta kaupverðsins 23,8 milljónir dala, eða rétt tæp 12% af þeim 200 milljónum sem að hámarki komu til greina.

Heildargreiðslan yrði þá samanlagt um 250 milljónir dala, eða um 59% af 425 milljóna hámarkinu. Rétt er þó að taka fram að reikningsskilastaðlar og skattalöggjöf í Suður-Kóreu er töluvert frábrugðin því sem tíðkast hér á landi, og ekki er farið nánar út í forsendur matsins eða áhrif þess í ársreikningnum.

Sé horft til reksturs CCP síðustu þrjú ár samkvæmt ársreikningi hefur rekstrarhagnaður aðeins einu sinni náð 25 milljónum dala, þegar hann nam 26,1 milljón árið 2016. Það ár var einnig metvelta: tekjur félagsins námu 86,1 milljón dala, en árið eftir féll veltan um tæpan fjórðung í 65,2 milljónir og rekstrarhagnaður niður í 11,8 milljónir.

Í fyrra féll veltan um tæp 14% milli ára og nam 56,3 milljónum dala, og rekstrarhagnaðurinn rúmlega helmingaðist og nam 5,2 milljónum dala. Rekstrarhagnaður ársins í ár þyrfti þannig að tífaldast milli ára og nema bróðurparti heildartekna í fyrra, til að seljendur fengju hámarksgreiðslu, 100 milljónir dala, fyrir það ár.

Spágildi þess fyrir þetta og næsta ár að skoða ársreikninga síðustu ára kann þó að vera takmarkað. Sem dæmi var tilkynnt um sókn fyrirtækisins inn á hinn risavaxna Kínamarkað í fyrra í samstarfi við tölvuleikjarisann Netease, sem mun útfæra farsímaútgáfu af þekktasta og vinsælasta leik CCP: Eve online.

Það má því leiða að því líkum að fyrirtækið sé með einhver járn í eldinum sem stjórnendur og seljendur vona að geti skilað því þeirri arðsemi sem til þarf til að hreppa titilinn sem vikið var að í þriðju málsgrein hér að ofan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: CCP Pearl Abyss