Ekki fæst uppgefið hve stór hluti bótagreiðslna Valitor til Sunshine Press Production ehf. (SPP) og DataCell ehf. (DC) rennur í raun til félaganna og þar með WikiLeaks. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ýmsum fjárfestum, jafnt innlendum sem erlendum, hafi verið boðið að koma að fjármögnun málarekstursins og fengið í staðinn ríflega sneið af kökunni.

Málið á rætur að rekja allt til ársins 2011 en þá gerði DC samning við Valitor um greiðsluþjónustu sem Valitor lokaði skömmu síðar eftir að hafa rift samningnum. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2013 að riftunin hefði verið ólögmæt og lagði fyrir Valitor að opna greiðslugáttina að nýju að viðlögðum dagsektum.

Frá þeim tíma hafa aðilar deilt um fjárhæð þess tjóns sem félögin urðu fyrir vegna þess tíma er gáttin var lokuð. Ýtrustu kröfur hljóðuðu um skeið upp á níu milljarða króna. Í liðinni viku fékkst loksins botn í málið er Valitor samþykkti að greiða félögunum 1,2 milljarða króna.

Eiga að nýtast Wikileaks

Í samtali við Vísi í síðustu viku sagði Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, að skaðabótagreiðslan yrði notuð til uppbyggingar á starfsemi miðilsins og að hún kæmi sér vel til að standa straum af lögmannskostnaði sem væntanlegur er í tengslum við framsalsmál Julian Assange. „Þetta eru náttúrulega endurbætur til Wikileaks vegna tapaðra framlaga frá einstaklingum sem voru sannarlega hindraðar með ólögmætum hætti,“ var haft eftir Kristni.

Viðskiptablaðið fyrir því heimildir að ýmsum aðilum hafi boðist að koma að fjármögnun málsins gegn því að fá hluta í bótagreiðslunni. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að fá hreint hve stór hluti greiðslunnar rennur að lokum til annarra aðila.

„Fyrir tæpum tíu árum gerðum við samkomulag um að aðilar sem standa að DC myndu fjármagna málareksturinn, sem hefur verið mjög kostnaðarsamur, gegn skiptingu mögulegra bóta. Það tengist til nokkurra landa en er á könnu okkar samstarfsaðila. Ég mun ekki upplýsa um efni þess,“ sagði Kristinn í samtali við Viðskiptablaðið en umrætt viðtal var tekið áður en dómsáttin lá fyrir. Eftir dómsáttina hefur Viðskiptablaðinu ítrekað reynt að ná tali af Kristni en án árangurs.

Þá liggur fyrir að þóknun Sveins Andra var að hluta til hagsmunatengd en Arion banki, eigandi Valitor, krafðist þess að lögmaðurinn viki sæti sem skiptastjóri Wow air af þeim sökum. Hagsmunir hans af lyktum máls SPP og DC gegn Valitor væru slíkir að jafna mætti honum sem aðila málsins. Héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu þeirri kröfu. Sveinn Andri staðfestir við Viðskiptablaðið að hann hefði gert slíkt samkomulag en sagði enn fremur að efni þess væri trúnaðarmál. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að hlutur lögmannsins hafi verið hátt í tíu prósent af upphæðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .