Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Endor hlaut á dögunum Hector verðlaunin frá Hewlett Packard Enterprise (HPE) sem hástökkvari ársins 2017. Verðlaunin eru veitt fyrir mestan vöxt samstarfsaðila HPE í Danmörku og á Íslandi á árinu 2017 samanborðið við árið á undan. Þrír af stofnendum Endor, Guðbrandur R. Sigurðsson, Arnar Kjærnested og Davíð Þ. Kristjánsson, veittu verðlaununum viðtöku í árlegum viðhafnarkvöldverði til heiðurs samstarfsaðilum HPE í Kaupmannahöfn

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Endor hljóti verðlaunin fyrir mikinn vöxt á árinu 2017 og þá sérstaklega í tengslum við gagnageymslulausnir.  Þá hafi hástökkvari ársins stimplað sig inn sem mikilvægur hlekkur í virðiskeðju HPE. Endor sé með þekkingu á miðlægum búnaði og gagnaverstengdum lausnum, skilji þarfir viðskiptavina og þær umbreytingar sem eru að eiga sér stað og veiti viðskiptavinum gæðaráðgjöf varðandi val á viðeigandi lausnum.

„Þessi verðlaun eru okkur mikil hvatning um að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á og í þeim felst ákveðin viðurkenning á störfum Endor. Þá er mikill heiður fyrir ungt og efnilegt félag að fá verðlaun frá einum stærsta og virtasta upplýsingatæknibirgja heims og gefur okkur kraft til að gera enn betur,”  segir Gunnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Endor.

Viðskiptablaðið tók ítarlegt viðtal Gunnar Guðjónsson framkvæmdastjóra Endor nú á dögunum en það má nálgast hér .