Skoðun og eftirlit á skattskilum í fyrra hefur leitt til þess að endurákvörðun um áður álagða skatta og gjöld framteljenda hækkaði um tæpa 7,6 milljarða króna. Samtals nemur hækkun skatta og gjalda á árabilinu 2008 til 2012 rétt tæpum 23 milljörðum króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Í blaðinu er haft upp úr leiðara Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra og Aðalsteins Hákonarson, sviðsstjóri eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, sem þeir skrifa í Tíund, fréttablaði embættisins, um skatteftirlit og undanskot og segja embættið hafa „á undanförnum árum séð fjölbreyttari flóru af kynlegum skattskilum en nokkru sinni áður. Þar er á stundum rambað á barmi hengiflugs í hæpnum túlkunum á ákvæðum skattalaga, oft á grundvelli ráðgjafar frá aðilum sem atvinnu hafa af slíku.“