KPMG á Íslandi, ásamt Reon, opnaði nú á dögunum endurbætt frumkvöðlasetur á þriðju hæð í höfuðstöðvum félagsins. Upphaflega opnaði frumkvöðlasetrið, sem ber heitið Musterið, fyrir um það bil fjórum árum síðan, á hálfri þriðju hæð. Í lok síðasta árs losnaði svo hinn helmingur hæðarinnar og var því ákveðið að nýta alla hæðina undir frumkvöðlasetrið. Meðal fyrirtækja sem hafa aðsetur í Musterinu má nefna Lava Cheese, Sportabler og Taktikal.

„Í upphafi vorum við með hálfa hæð undir frumkvöðlasetrið. Leigjendurnir sem áður höfðu verið að leigja rýmið fluttu svo annað og þá sátum við eiginlega uppi með rými sem ekki var þörf á í rekstri KPMG. Á sama tíma vorum við að byrja með þjónustulínu sem var ætluð nýsköpunarfyrirtækjum og fól það í sér að við hófum að bjóða þeim þjónustu á öllum okkar sviðum á hagstæðum kjörum. Í tengslum við þetta kynntumst við stofnendum hugbúnaðarhússins Reon og þeir enda á að koma með okkur í þetta verkefni. Síðan þróuðust hlutirnir þannig að ákveðið var að þessi fyrrnefnda hálfa hæð yrði nýtt til að bjóða nýsköpunarfyrirtækjum aðsetur. KPMG hóf því að endurleigja þetta rými í samstarfi við Reon til nýsköpunarfyrirtækja, með miklum afslætti. Reon ásamt okkur sér svo um umsýsluna og hjálpa okkur við að velja fyrirtæki inn. Nýsköpunarfyrirtækjum er veitt ákveðið stuðningsumhverfi í Musterinu. Við viljum fá nýsköpunarfyrirtæki inn í þetta rými sem eru komin aðeins lengra en frumstigið," segir Hlynur Sigurðsson, endurskoðandi og eigandi hjá KPMG.

„Rýmið var fljótt að fyllast og það voru sjö til átta fyrirtæki sem fengu aðsetur þar í byrjun. Síðan rúllar þetta áfram í þessu formi í þrjú til fjögur ár. Svo í fyrra losnaði öll hæðin og þá ákváðum við að víkka þetta út. Núna eru á annan tug fyrirtækja með aðsetur í musterinu, en rýmið er um 1000 fm. Samhliða því að taka inn fleiri fyrirtæki í stærra rými þá fengum við fleiri samstarfsaðila með okkur, en KPMG og Reon eru enn lykilbakhjarlarnir," bætir hann við.

Ásgeir Skorri Thoroddsen, verkefnastjóri á skatta- og lögfræðisviði KPMG, segir að gott samfélag spennandi fyrirtækja hafi myndast í Musterinu. „Það hefur myndast samstarf á milli fyrirtækjanna, sem leiðir af sér aukna þekkingarsköpun. Hlutverk bakhjarlanna er svo að vera til staðar og aðstoða fyrirtækin í málum sem tengjast okkar sérsviðum. Þetta hefur reynst mjög vel og góð stemning myndast á hæðinni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .