Orðrómur er um að hópur íslenskra fjárfesta hafi í síðustu viku keypt tæplega 3% hlut í bresku matvöruverslunarkeðjunni Sainsburys, sem hefur stuðlað að hækkun á gengi hlutabréfa fyrirtækisins. Talið er að fjárfestarnir hafi síðan aukið við hlut sinn, en kaupin eru þó enn ekki flöggunarskyld þar sem eignarhluturinn er undir 5%.

Líkt og oft áður er Baugur grunaður um kaupin, en einnig eru getgátur um að FL Group sé með í för. Saman tóku félögin stöðu í bresku stórverslunarkeðjunni Marks & Spencer í fyrra og seldu síðan með góðum hagnaði.

Gengi hlutabréfa Sainsburys hafði hækkað um 0,98% í tæp 439 pens hluturinn í gærmorgun og á föstudaginn, stuttu eftir að orðrómurinn fór á kreik, hækkuðu bréfin um 0,9%. Markaðsvirði félagsins er í kringum 7,5 milljarðar punda, sem samsvarar rúmlega eitt þúsund milljörðum króna.

FL Group hefur jafnt og þétt verið að auka fjárfestingargetu sína með ýmsum fjármálaverkfærum. Baugur hefur einnig töluverða fjárfestingagetu, en margir sérfræðingar telja Sainsburys þó of stóran bita fyrir Íslendingana. Hins vegar eru góðir möguleikar á að skuldsetja breska félagið verulega og fasteignir félagsins eru eftirsóknarverðar, segja greiningaraðilar. Reiknað er með að hugsanlegir kaupendur þurfi í kringum tvo milljarða punda í eigið fé til að kaupa félagið.

Breska verðbréfafyrirtækið Numis telur Sainsburys vera mest spennandi matvælakeðjuna og bendir á að virði fasteigna félagsins sé svipað og markarðsvirði félagsins. Baugur og samstarfsaðilar hafa notað fasteignir fyrirtækja sem þeir kaupa til að greiða kaupverð að hluta (e. sale and leaseback) og því mögulegt að fasteignsafnið geti auðveldað kaupin.

Töluverður viðsnúningur var á rekstri Sainsburys á síðasta ári og jukust tekjur félagins um 5,8% á þriðja ársfjórðungi, sem lauk þann 31. desember síðastliðinn. Sala félagsins hefur aukist jafnt og þétt á síðustu átta ársfjórðungum. Samkvæmt upplýsingum frá breska greiningarfyritækinu TNS er Sainsburys þriðja stærsta matvörukeðja Bretlands, með 15,9% markaðshlutdeild.

Breska matvörukeðjan Tesco jók markaðshlutdeild sína á breska smásölumarkaðnum á síðustu tólf vikum ársins 2006 í 31,4%, en markaðshlutdeild fyrirtæksins var 30,1% í byrjun ársins. Iceland-verslunarkeðjan, sem að mestu leyti í eigu Baugs og eignarhaldsfélagins Fons, hélt markaðshlutdeild sinni í 1,8% á árinu sem leið. Somerfield-verslunarkeðjan, sem að hluta til í eigu Kaupþings, missti markaðshlutdeild sína niður í 3,9% í fyrra úr 4,1% í byrjun ársins 2006. Asda er annað stærsta smásölufyrirtækið á breska markaðnum með 16,6% sneið af kökunni og var markaðshlutdeild félagsins óbreytt á árinu sem leið. Asda er í eigu bandaríska smásölurisans Wal-Mart.

Baugur, FL Group og breski fjárfestirinn og einn stofnenda Karen Millen-keðjunnar eiga saman fjárfestingafélagið Unity Investments, sem meðal annars heldur utan um fjárfestingar eigendanna í Woolworths og Moss Bros. Félagið var stofnað vegna samstarfsins um kaupin í Marks & Spencer og mögulegt er að Unity-sjóðurinn hafi keypt í Sainsburys, segja markaðsaðilar. Baugur og Standford teljast líklegir til að gera kauptilboð í Moss-keðjuna ef samningar nást við fjölskylduna sem stofnaði félagið.

(Endurbirting: Engar efnislegar breytingar eða leiðréttingar. Greinin birt í heild sinni).