Kaupþing banki hefur verið ráðinn til að skrá tvö fyrirtæki á hlutabréfamarkaði í ár, sagði Hreiðar Már Siguðsson, forstjóri bankans, á blaðamannafundi í dag.

"Við erum með tvö verkefni um að fleyta tveimur félögum á hlutabréfamarkað á þessu ári," sagði Hreiðar Már. Ekki hefur komið fram hvar né hvenær skráningarnar munu eiga sér stað. Hreiðar sagði skráningarnar koma úr eignasafni bankans.

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, greindi frá því nýlega að félagið er að vinna að skráningu félaga úr eignasafni sínu. Baugur og Kaupþing eiga hlut í bresku tískuvöruverslunarkeðjunni Shoe Studio Group.

Don McCarthy, forstjóri Shoe Studio Group, sagði í samtali við breska fjölmiðla í júní í fyrra að til stæði að skrá félagið á hlutabréfamarkað á Íslandi í kjölfar vel heppnaðrar skráningar Mosaic Fashions í Kauphöll Íslands.