Fjárfestingasjóðurinn Novator, sem er stjórnað af Björgólfi Thor Björgólfssyni, hefur samþykkt að fjárfesta 24,5 milljónir punda (2,7 milljarðar íslenskra króna) í breska breiðbandsfyrirtækinu Be, ásamt stjórnendum félagsins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fjármagnið verður nýtt til að víkka út starfsemi félagsins þannig að Be geti þjónustað notendur um allt Bretland, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins. Búist er við að um helmingur íbúa Bretlands hafi aðgang að breiðbandsþjónustu Be í árslok.

Ekki er vitað hve stóran hlut Novator á í Be, en félagið mun fá tvö stjórnarsæti vegna viðskiptanna. Bruce McInroy og Constantine Gonticas munu setjast í stjórn Be fyrir hönd Novators. Be var stofnað af Boris Ivanovic og Dönu Pressman og segir McInroy að Novator hafi trú á stjórnendum félagins.

"Við höfum ákveðið að styðja stjórnendateymi sem hefur þegar sannað hæfileika sína og getu við þróun hraðra internetlausna," sagði McInroy. Be sérhæfir sig í 24 megabæta breiðbandslausnum, sem eru með hraðvirkustu lausnunum á markaðnum.

Novator fjárfestir aðallega í síma- og fjarskiptafyrirtækjum í Evrópu. Félagið hefur samið um kaupréttinn á meirihlutanum í Bulgarian Telecommunications Company (BTC), og er einnig stór hlutafi í finnska símafélaginu Elisa, gríska internetfyrirtækinu Forthnet, pólska símafélaginu Netia og tékkneska fjarskiptafélaginu Ceske Radiokomunikace.