Við kynningu á mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í aflamarki þorsks var þess getið að ríkisstjórnin hygðist verja einum milljarði króna á rúmlega tveimur árum til framkvæmda við endurbætur og viðhald fasteigna og mannvirkja í eigu ríkisins.

Á vef fjármálaráðuneytisins segir að fjármálaráðherra hafi nú ákveðið skiptingu fjárins á verkefni að teknu tilliti til ábendinga og tillagna Fasteigna Ríkissjóðs og Heilbrigðisráðuneytisins þar sem sérstaklega hefur verið litið til þeirra sveitarfélaga og svæða þar sem aflasamdráttur mun leiða til fækkunar starfa.

Á næstu tveimur árum verður 167 milljónum króna varið til verkefna á Vesturlandi, 195 milljónum á Vestfjörðum, 163 milljónum á Norðurlandi, 177 milljónum á Austurlandi og S-austurlandi, 139 milljónum í Vestmannaeyjum og 159 milljónum á Suðurnesjum.

Fjárveitingar til verkefna vegna ársins 2009 eru settar fram með þeim fyrirvara að fjárlög ársins 2009 geri ráð fyrir þeim fjárveitingum sem þar eru áætlaðar og ráðgerðar voru við kynningu mótvægisaðgerðanna. Vegna samhengis verkefna og svæðisskiptingar þykir þó rétt að kynna framkvæmdir þess árs einnig nú.