Fjárfestingafélagið Strengur samdi í mars um endurfjármögnun á 4,5 milljarða skuldum við fjármálastofnanir sem voru á gjalddaga á þessu ári samkvæmt ársreikningi Strengs. Lengt var í lánunum til mars 2024. Lánin voru nýtt til að fjármagna um 8,5 milljarða kaup á ríflega helmingshlut í Skel fjárfestingafélagi, áður Skeljungi.

Strengur eignaðist ríflega 50,06% í Skel í ársbyrjun 2021. Kaupin voru því að stórum hluta fjármögnuð með lánum til eins til tveggja ára en Íslandsbanki og Arion banki voru aðallánveitendur kaupanna. Þá greindi Fréttablaðið frá því síðasta sumar að bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital hefði einnig komið að fjármögnuninni ásamt Kviku og TM. Taconic eignaðist í byrjun þessa árs 5% hlut í Skel. Þá tóku hluthafarnir að einhverju leyti lán fyrir sínum eignarhlutum.

Í ársreikningi 365 fyrir árið 2020 kom meðal annars fram að félagið hefði tekið 570 milljóna skammtímalán á árinu sem lá fyrir að yrði endurfjármagnað á árinu 2021.

Strengur hefur síðan notið góðs af mikilli hækkun hlutabréfaverðs í Skel frá yfirtökunni. Yfirtökutilboð Strengs í Skel nam 8,315 krónum á hlut en gengi bréfa félagsins stendur nú í 17,4 krónum á hlut. Strengur hagnaðist um 5,6 milljarða króna í fyrra sem var að megninu til vegna hækkunar á gengi bréfa Skeljar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .