Stefnt er að því að ljúka endurfjármögnun á skuldum Hafnarfjarðarbæjar innan þriggja vikna samkvæmt fréttastofu RÚV. Viðræður standa yfir við lífeyrissjóðina um að þeir endurfjármagni erlend lán bæjarins, en skuldir upp á fjóra og hálfan milljarð króna hafa verið í vanskilum frá því í apríl. Hafnarfjarðarbær skuldar um þrettán milljarða í erlendar skuldir. Auk þess sem þegar er í vanskilum, eru sex milljarðar á gjalddaga í janúar á næsta ári. Heildarskuldir bæjarins nema um 30 milljörðum króna, samkvæmt ársreikningi 2010.