Landsbankinn hefur lokið við að selja 18,5 milljarða skuldabréf sem ætluð eru til endurfjármögnunar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar hafi keypt öll bréfin.

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Totusar, sem fer með hlut ríkisins og Reykjavíkurborgar í Hörpu, segir í samtali við blaðið verið að vinna í pappírsvinnunni og sé stefnt að því að ljúka skuldabréfaútboðinu formlega í júní.

Móðurfélag Totusar fjármagnaði byggingu Hörpu með 17,1 milljarðs króna sambankaláni frá Arion banka og Íslandsbanka sem tekið var í janúar árið 2010. Kostnaðurinn við lánið nemur einum milljarði á ári. Til viðbótar við það lánaði ríki og borg félaginu 730 milljónir í fyrra. Endurfjármögnunin á að greiða bæði lánin upp að fullu.