Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri hafnarfjarðarbæjar, segir lykilatriði fyrir bæinn að það takist að ljúka við endurfjármögnun lána. „Það er lykilatriði að okkur takist að ljúka því verkefni, því það hangir svo margt á spýtunni,“ segir Guðmundur Rúnar. Ítarlegt viðtal við Guðmund er að finna í Viðskiptablaðinu sem kemur út morgun. Hér að neðan má lesa brot úr viðtalinu.

Hafnarfjörður hefur vaxið ört á undanförnum árum og áratugum og útgjöld vegna ýmislegrar þjónustu sem bærinn veitir íbúum hafa eðli málsins samkvæmt aukist í samræmi við það. Guðmundur segir ýmislegt hafa verið gert til þess að rifa seglin, ef svo má að orði komast, og skera niður útgjöld eins og nauðsynlegt sé þegar tekjurnar dragast saman.

„Við höldum algerlega að okkur höndum í öllum framkvæmdum og gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða til hagræðingar í rekstrinum. Sumt af því er þegar farið að skila sér og annað á eftir að skila sér. Fjárhagsáætlun þessa árs og þriggja ára áætlun gera þannig ráð fyrir umtalsverðri hragræðingu. Við höfum fækkað starfsfólki í stjórnsýslu, gripið til launalækkandi aðgerða oftar en einu sinni, lækkað starfshlutföll, stytt opnunartíma í stofnunum og sameinað stofnanir,“ segir hann og bætir því við að aðgerðir af þessu tagi skili sér jafnan ekki að fullu fyrr en alllöngu eftir að ákvarðanir um þær séu teknar. „Við höfum lagt ríka áherslu á að verja grunnþjónustu, en það er ljóst að ekki er hægt að grípa til aðgerða sem fela í sér hagræðingu upp á mörg hundruð milljónir og halda á sama tíma uppi sama þjónustustigi og áður. Það segir sig sjálft.“ Guðmundur segir höfuðáhersluna liggja á að verja lögbundna grunnþjónustu og þar af leiðandi bitni hagræðingaraðgerðirnar mest á þeirri þjónustu sem ekki telst til skylduverkefna lögum samkvæmt.

„Við erum í miðju kafi við að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun ársins. Margar þeirra eru sársaukafullar og bitna á fólki og fjölskyldum og þjónustunni við bæjarbúa. Við reynum samt að haga aðgerðum þannig að sem fæstir finni mikið fyrir því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Viðbrögð Seðlabankans við efnahagshorfum Greiningardeildar Arion banka
  • Landsbankinn stefnir Jóni Ólafssyni
  • Handtaka Dominique Strauss-Kahn veldur uppnámi
  • Úttekt: Viðkvæm staða sveitarfélaga
  • Verðmætustu vörumerki heims
  • Offjölgun lögfræðimenntaðra möguleg
  • Ákvörðun um launalækkanir ríkisins í höndum yfirmanna stofnana
  • Öll íslensk ull er nýtt
  • Standard & Poor's lækka einkunnir
  • Veiði: Undir 70% laxa í Langá veiddust
  • Sport & peningar: Markaðsherferði Ölgerðarinnar í tengslum við Pepsi-deildina