Skrifað hefur verið undir samning um fjármögnun á uppbyggingu ræktunar á bláskel í Eyjafirði á vegum fyrirtækisins Norðurskeljar ehf. í Hrísey. Samningurinn miðar að því að byggja upp 800 tonna ræktun á bláskel á ári, innan þriggja ára, en félagið hefur ræktunar- og starfsleyfi á þremur stöðum í Eyjafirði við Dagverðareyri, Rauðuvík og Hrísey.

Norðurskel er með um 50 km af lirfusöfnurum í sjó, en samningurinn sem nú var gerður gerir ráð fyrir að næstu þrjú árin verði settir út um 100 km af lirfusöfnurum á ári.

Árið 2000 hóf Norðurskel ræktun á bláskel í Eyjafirði og segir í tilkynningu að aflast hafi mikil vitneskja um ræktunarskilyrði, hvað beri að varast og hverjir séu styrkleikar svæðisins. Áðurnefndur samningur geri ráð fyrir verulegri aukningu framleiðslu á næstu árum og útflutningi í kjölfarið.

Eftir endurfjármögnun Norðurskeljar eiga frumkvöðlar í Norðurskel fjórðungs hlut. Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Kaupfélag Eyfirðinga svf. og Tækifæri hf. eiga 20% hvert félag og Akureyrarbær, Sæplast hf. og Byggðastofnun eiga samtals 15%.