Flugfélagið Lufthansa tilkynnti í gær um 2,1 milljarða evra hlutafjáraukningu, jafnvirði um 320 milljörðum króna, til að endurgreiða að hluta ríkisstuðning frá þýska ríkinu á síðasta ári. Financial Times greinir frá.

Hlutafjáraukningin hefur verið sölutryggð af fjórtán bönkum og fyrirhugað er að ljúka henni í byrjun október. Flugfélagið vonast til að endurgreiða að fullu 2,5 milljarða evra sem félagið fékk frá björgunarsjóðnum ESF (Economic Stabilisations Fund).

ESF tók þátt í 9 milljarða evra björgunarpakka Lufthansa í fyrra ásamt ríkissjóðum Austurríkis, Sviss, Ítalíu og Belgíu. Stjórnvöld í Berlín hafa einnig keypt hlutabréf í Lufthansa fyrir 300 milljónir evra og eiga nú um 16% hlut í flugfélaginu. Lufthansa hefur endurgreitt stóran hluta af björgunarpakkanum og hefur meðal annars greitt upp 1 milljarðs evra lán frá þýska þróunarbankanum KfW.

„Við höfum alltaf haldið því til streitu að við munum einungis halda fjármunum frá björgunarpakkanum á meðan nauðsyn krefur,“ er haft eftir Carsten Spohr, forstjóra Lufthansa. „Við getum núna einblínt okkur að frekari endurskipulagningu á Lufthansa samstæðunni.“