Um 2,5 milljarða króna lán sem Reykjanesbær ákvað að greiða niður í gær var tekið á árinu 2008 til þess að styrkja stöðu Sparisjóðs Keflavíkur. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að nú þegar Landsbankinn hafi tekið við rekstri sparisjóðsins hafi ekki þótt ástæða til að halda láninu og það var því endurgreitt. Fram kom í tilkynningu til Kauphallar í gær að samsvarandi upphæð hafi legið á innstæðureikning bæjarsjóðs og er nýtt til að greiða niður lánið. Árni segir að endurgreiðsla lánsins breyti litlu hvað varðar heildarmynd af fjárhag Reykjanesbæjar.

Í viðræðum við fjármálaeftirlitið

Reykjanesbær á í viðræðum við fjármálaráðuneytið vegna ógreidds fjármagnstekjuskatts vegna sölu á HS Orku. Upphæðin nemur um 800 milljónum króna. Tilkynnt var um viðræðurnar í nóvember á síðasta ári og segir Árni að ekki sé mikill þungi í viðræðum. „Í fjáraukalögum var sett inn ákvæði þar sem fjármálaráðuneytinu var heimilað að semja við sveitarfélög,“ segir Árni en Hafnarfjarðarbær á einnig í viðræðum vegna ógreidds fjármagnstekjuskatts.

Árni segir að fjármálaráðuneytið hafi verið látið vita að bærinn gæti að öllum líkindum ekki greitt skattinn á tilsettum tíma og óskaði eftir viðræðum. Þá segir Árni að verið sé að skoða hvort innheimta skattsins stenst jafnræðisreglu. Hann bendir á að fleiri sveitarfélög hafi selt í orkufyrirtækjum en ekki greitt af sölunni fjármagnstekjuskatt. „Krafan kemur á Reykjanesbæ og Hafnarfjörð vegna þess að þetta er skráð hlutafélag. Það hefur verið gerð athugasemd við það og við viljum athuga hvort innheimtan standist jafnræðisreglu. Rökin eru þau að það á að gilda jafnræðisregla óháð rekstrarformi fyrirtækisins,“ segir Árni. Hann tekur skýrt fram að Reykjanesbær geri þó ráð fyrir að greiða þennan skatt, og hafi verið ástæða þess að heimildin var sett í fjáraukalögin.