Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa úrskurðaði að eiganda skútu bæri að endurgreiða þremur einstaklingum, vegna afbókunar fyrirhugaðrar leigu á skútunni síðastliðið sumar, samtals 9.516 evrur eða sem jafngildir um 1,5 milljónum íslenskra króna.

Málavextir voru þeir að þrír einstaklingar, hér eftir nefndir sóknaraðilar, höfðu gert samning um leigu á skútu í eigu aðila, hér eftir nefndur varnaraðili, yfir tímabilið 19. júní til 10. júlí nýliðins árs. Samkvæmt leigusamningi nam heildargreiðsla vegna leigunnar 18.360 evrum, auk skilagjalds að fjárhæð 250 evra, samtals að jafnvirði tæplega 3 milljóna íslenskra króna.

Í skilmálum varnaraðila vegna leigunnar kom fram að afbóka þyrfti eigi síðar en fjórum vikum fyrir fyrsta leigudag en að staðfestingargjald, svo kallað "Confirmation fee" væri óafturkræft. Sóknaraðilar afbókuðu skútuna með þriggja mánaða fyrirvara og því óumdeilt að varnaraðila bæri að endurgreiða greiðslur vegna fyrirhugaðrar leigu á skútunni að frádregnu staðfestingargjaldi, en upplýsingar um staðfestingargjaldið voru óskýrar og ósamrýmanlegar í skilmálum leigusamnings annars vegar og bókunarstaðfestingu hins vegar.

Í leigusamningi varnaraðila, sem sóknaraðili undirritaði, kom fram um staðfestingargjaldið að við bókun sé áskilin innborgun, eða „deposit", að fjárhæð 1.500 evrur, en í bókunarstaðfestingu vegna leigunnar kom aftur á móti fram að fyrirframgreiðslan, eða „advance payment", væri 5.508 evrur. Í bókunarstaðfestingunni kom enn fremur fram að fyrsta greiðsla væri 30% við bókunarstaðfestingu, önnur greiðsla 30% sextíu dögum eftir staðfestingu og þriðja greiðsla 40% fjórum vikum fyrir leigutímabil.

Varnaraðili ber hallann af óskýrum ákvæðum

Kærunefndin segir í úrskurðinum að ekki verði ráðið af málsgögnum með skýrum hætti hvort „Confirmation fee" feli í sér greiðslu staðfestingargjalds vegna bókunar í samræmi við leigusamning aðila eða innborgunar samkvæmt bókunarstaðfestingu. Þá segir nefndin ekkert liggja fyrir í málinu sem sýni fram á að þýðing samningsskjalanna hafi verið útskýrð fyrir sóknaraðila eða að upplýsingar hafi verið veittar um þýðingu og samspil þeirra.

„Sóknaraðilar komu ekki að gerð skilmála varnaraðila, leigusamningi varnaraðila eða bókunarstaðfestingarinnar. Verður varnaraðili, sem samdi öll samningsskjöl málsins einhliða, að bera hallann af því hversu óskýr og ósamrýmanleg ákvæði leigusamningsins, leiguskilmálanna og bókunarstaðfestingarinnar eru. Verður ekki annað séð en að málsaðilar hafi samið um og verið upplýst um að staðfestingargjald, að fjárhæð 1.500 evrur, verði ekki endurgreitt við afbókun," segir í úrskurðinum.

Úrskurðaði kærunefndin því að varnaraðila bæri að endurgreiða sóknaraðilum samtals 9.516 evrur, líkt og fyrr segir.

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa skipuðu í þessu máli þau Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður og formaður kærunefndarinnar, Ívar Halldórsson lögfræðingur og Jón Rúnar Pálsson lögmaður.