Trúfélag Zúista er félag hefur lofað endurgreiðslu sem það fær frá ríkinu í nafni félaga sinna. Í fréttatilkynningu frá Trúfélagi Zúista á Facebook síðu kemur fram að greiðslan frestast vegna máls sem varðar stjórnarskipan trúfélags Zúista sem er til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu.

„Ætlun okkar var að hefja endurgreiðslu sóknargjalda í þessum mánuði en sökum þess að úrskurður liggur enn ekki fyrir hjá ráðuneytinu mun það því miður dragast um sinn. Verið er að vinna í málinu og við munum greina frá því hér þegar niðurstaða hefur fengist,“ segir í fréttatilkynningunni.

Að sögn Zúistanna þá eru áform félagsins að öðru leyti óbreytt og krafa þeirra um breytingar á trúafrfélaginu standa. Viðskiptablaðið hefur heyrt það frá nokkrum sem skráðu sig í kirkjuna að þeir bíða óþreyjufullir eftir endurgreiðslu frá Zúistum.

Hér má sjá fréttatilkynninguna í heild sinni;

Kæru félagar,

Hjá innanríkisráðuneytinu er til meðferðar mál sem varðar framkvæmd stjórnarskipta trúfélags Zúista á síðasta ári, en síðastliðið vor kærðu fyrrverandi forsvarsmenn félagsins ákvörðun stjórnvalda um skipan nýrra forsvarsmanna. Ætlun okkar var að hefja endurgreiðslu sóknargjalda í þessum mánuði en sökum þess að úrskurður liggur enn ekki fyrir hjá ráðuneytinu mun það því miður dragast um sinn. Verið er að vinna í málinu og við munum greina frá því hér þegar niðurstaða hefur fengist.

Að öðru leyti eru áform okkar óbreytt og krafa okkar um breytingar á trúfélagakerfinu stendur. Við bendum á að 1. desember nálgast en trúfélagsskráning einstaklinga þann dag ákvarðar til hvaða trúfélags sóknargjöld þeirra renna árið eftir. Rétt er að nefna að andvirði sóknargjalda þeirra sem standa utan trúfélaga renna ekki til Háskóla Íslands heldur greiða þeir hlutfallslega meira til samneyslunnar.

Við hvetjum því alla til að yfirfara skráningu sína fyrir næstu mánaðamót. Hvort sem fólk vill ganga í eða úr trúfélaginu Zuism þá má gera það með auðveldum hætti hjá Þjóðskrá Íslands. Sem fyrr hvetjum við fólk einnig til að stofna sín eigin trúfélög. Leiðbeiningar um hvernig breyta má trúfélagaskráningu sinni og stofna trúfélög er að finna á heimasíðu okkar, http://zuistar.is.

Virðingarfyllst,
Öldungaráð Zúista